Fréttir


Umfjöllun um Þorvaldsdalsskokkið í Skinfaxa

posted May 18, 2020, 6:20 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

Í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ, er ýtarleg umfjöllun um Þorvaldsdalsskokkið. 4. júlí verður skokkið haldið í 27. sinn. Skráning í hlaupið er í fullum gangi og er met fjöldi þátttakenda nú þegar skráður. Að þessun sinni er samstarf við Landvætti,verkefni Ferðafélag Íslands.

Nálgast má frekari upplýsingar um skokkið á heimasíðu þess:  http://thorvaldsdalur.umse.is/


Hjólað í vinnuna 6.-26. maí

posted May 5, 2020, 2:47 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

Nú styttist í að vinnustaðakeppnin Hjólað í vinnuna 2020 hefjist í átjánda sinn en að þessu sinni fer keppnin fram frá 6. - 26. maí.

Verkefnið Hjólað í vinnuna fer fram 6.-26. maí nk. Opnað verður fyrir skráningar 22. apríl og hægt er að skrá sig allan tímann á meðan keppni stendur yfir eða fram til 26. maí. Hjólað í vinnuna er fyrir marga vorboðinn ljúfi. Þrátt fyrir sérstakar aðstæður í þjóðfélaginu núna er nauðsynlegt að huga vel að heilsunni og sinni daglegu hreyfingu. Fyrirtæki og stofnanir um allt land geta nú farið að huga að því að skrá vinnustaðinn til leiks og hvetja þannig allt starfsfólk til að vera með þrátt fyrir að fólk vinni jafnvel heiman frá sér. Mikilvægt er fyrir vinnustaði landsins að huga að starfsandanum á þessum fordæmalausu tímum og er verkefnið Hjólað í vinnuna góð leið til þess að hressa upp á stemninguna og þjappa hópnum saman, en auðvitað á sama tíma að virða 2 metra fjarlægðarmörkin. Útfærslan er einföld. Fólk gengur, hjólar eða ferðast með öðrum virkum hætti þá vegalengd er samsvarar vegalengd til og frá vinnu og skráir þá kílómetra inn í kerfið. Hægt er að byrja eða enda vinnudaginn á því að ganga eða hjóla til og frá vinnu.

Markmið verkefnisins er að huga að daglegri hreyfingu ásamt því að vekja athygli á virkum ferðamáta og eru hjólreiðar bæði virkur og umhverfisvænn ferðamáti. Hjólreiðar eru frábær útivist, hreyfing og líkamsrækt. Munum bara að halda góðri fjarlægð á milli annarra hjólreiðarmanna/-kvenna

Íþrótta- og Ólympíusamband Ísland hvetur landsmenn til að hreyfa sig daglega og ekki síst taka þátt í þessu skemmtilega verkefni sem Hjólað í vinnuna er.


Hjólakveðja,
Almenningsíþróttasvið Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Praktískar upplýsingar:
Keppt er í átta flokkum um flesta þátttökudaga hlutfallslega miðað við heildarfjölda starfsmanna á vinnustöðum og í liðakeppni um flesta kílómetra.
Aðalatriðið er að fá sem flesta með sem oftast, til að hjóla, ganga, taka strætó, nota línuskauta eða annan virkan ferðamáta.

Að skrá sig til leiks:

 1. Farið er inná vef Hjólað í vinnuna,
 2. Smellt er á Innskráning efst í hægra horninu
 3. Ef þú átt ekki aðgang nú þegar þá stofnarðu þinn eigin aðgang með því að skrá þig inn með Facebook eða búðu þér til notendanafn og lykilorð.
 4. Velja má á milli þess að stofna vinnustað (þarf að gera ef vinnustaðurinn finnst ekki í fellilista) eða stofna/ganga í lið (þá er búið að stofna vinnustaðinn).
 5. Skráningu lokið

Hægt er að nálgast ítarlegar skráningarleiðbeiningar inná vef Hjólað í vinnuna 

Nánari upplýsingar um Hjólað í vinnuna gefur Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ í síma: 514-4000 eða á netfangið hjoladivinnun@isi.is.

Breytingar á takmörkun á samkomum 4. maí

posted Apr 23, 2020, 3:05 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE21. apríl, birti heilbrigðisráðherra nýja auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Takmörkunin tekur gildi 4. maí 2020 kl. 00.00 og gildir til 1. júní 2020 kl. 23.59.

Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkuninni eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar.

Takmörkun á samkomum tekur til landsins alls.

 

Í auglýsingu ráðherra kemur eftirfarandi fram varðandi skipulagt íþróttastarf eftir 4. maí nk. og á við alla aldurshópa fyrir utan börn á leik- og grunnskólaaldri:

6. gr.

Skipulagt íþróttastarf.

Æfingar og keppnir skipulagðs íþróttastarfs eru heimilar án áhorfenda með þeim takmörkunum sem greinir í 6. gr.

Í skipulögðu íþróttastarfi skulu snertingar vera óheimilar og halda skal 2 metra bili á milli einstak­linga. Notkun á sameiginlegum búnaði, einkum þeim sem snertur er með höndum, skal haldið í lágmarki og ber að sótthreinsa hann á milli notkunar.

Óheimilt er að nota búningsklefa, sturtuklefa og aðra inniaðstöðu en íþróttasal og salernis­aðstöðu.

Við skipulagt íþróttastarf innandyra mega ekki fleiri en fjórir einstaklingar æfa eða leika saman í einu rými, sem skal vera a.m.k. 800 m².

Við skipulagt íþróttastarf utandyra mega ekki fleiri en sjö einstaklingar æfa eða leika saman í hópi. Séu fleiri hópar við æfingar á sama svæði skal miða við að hver hópur hafi um 2.000 m² til umráða.

Þrátt fyrir ákvæði 3.-5. mgr. eru sundæfingar heimilar fyrir allt að sjö manns í einu, hvort sem er inni eða úti, og notkun búnings- og sturtuaðstöðu eftir því sem þörf krefur.

 

8. gr.

Takmörkun gildissviðs.

Ákvæði 3., 4. og 5. gr. auglýsingar þessarar taka ekki til nemenda í starfsemi leik- og grunn­skóla þannig að þar sé hægt að halda óskertri vistun og kennslu. Sama á við um starfsemi dag­foreldra, frístundaheimila, félagsmiðstöðva og aðra lögbundna þjónustu á leik- og grunnskólastigi. Í því felst að ekki eru takmarkanir á því hversu margir nemendur geti verið saman komnir eða nálægð þeirra í framang­reindri starfsemi, þ.m.t. í frímínútum og mötuneyti. Öðrum en nemendum ber í framan­greindri starfsemi að fara eftir ákvæðum auglýsingarinnar eins og unnt er.

Með sama hætti og í 1. mgr. taka ákvæði 3., 4., 5. og 6. gr. auglýsingarinnar ekki til íþrótta- og æskulýðsstarfs barna á leik- og grunnskólaaldri. Um fjölda og nálægð annarra en barna á umrædd­um aldri fer eftir almennum reglum auglýsingarinnar.

Auglýsingin tekur hvorki til alþjóðaflugvalla og -hafna né til loftfara og skipa.

 

Hér fyrir neðan er vefslóð á auglýsinguna í heild sinni ásamt fylgiskjölum:
Samkvæmt 8. grein auglýsingar ráðherra þá er íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri án takmarkana eftir 4. maí nk.  Um fjölda og nálægð annarra en barna á umrædd­um aldri, á æfingum og í keppni barna á leik- og grunnskólaaldri, fer eftir almennum reglum auglýsingarinnar.


Til útskýringar varðandi íþróttastarf annarra aldurshópa en barna á leik- og grunnskólaaldri þá kemur eftirfarandi fram í minnisblaði sóttvarnalæknis:
 
 • Mest verði sjö einstaklingar með þjálfara á útisvæði sem miðast við hálfan fótboltavöll.
 • Mest verði fjórir einstaklingar með þjálfara á innisvæði sem miðast við handboltavöll.
 • Notkun búningsaðstöðu innanhúss verði óheimil.
 • Hvatt verði til að tveggjametra nándarreglan verði virt.
 • Keppni í íþróttum fullorðinna verði óheimil nema ef hægt sé að uppfylla skilyrði um tveggja metra nándarreglu og að keppni sé án áhorfenda. 
 • Sundæfingar fyrir fullorðna verði að hámarki fyrir sjö einstaklinga. Notkun búnings- og sturtuaðstöðu verði leyfð.
 • Áfram verði hvatt til sérstaks hreinlætis, handþvottar og notkunar handspritts.  

Leitað hefur verið eftir túlkun sóttvarnayfirvalda á notkun á búnaði á milli hópa í íþróttastarfi fullorðinna og hefur ÍSÍ fengið upplýsingar um að sótthreinsa þarf búnað fyrir notkun hópa og að lokinni notkun, áður en næsti hópur tekur við búnaðinum til notkunar. Þetta á t.a.m. við um bolta.
 

Sundlaugar og húsnæði líkamsræktarstöðva skulu vera lokuð almenningi. Sundlaugar mega þó hafa opið fyrir skólasund og skipulagt íþróttastarf sem samræmist reglum 6. gr.
 

Við hvetjum ykkur til að skoða öll gögn vandlega og vera í sambandi ef eitthvað er óljóst eða spurningar vakna.

Sóttvarna- og heilbrigðisyfirvöld eru í góðu samstarfi við ÍSÍ og UMFÍ og taka fagnandi ábendingum og fyrirspurnum er varða íþróttastarfið og COVID-19.

Hlutagreiðlsur geta nýst íþróttafélögum

posted Mar 25, 2020, 5:57 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE   [ updated Mar 25, 2020, 6:04 AM ]

Samkvæmt frumvarpi sem 
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherralagði fram og samþykkt var síðasta föstudag, eiga starfsmenn og verktakar íþróttafélaga og frjálsra félagasamtaka rétt til hlutagreiðslu samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda.

Lögin fela í sér að laun sem greidd eru samhliða minnkuðu starfshlutfalli koma ekki til skerðingar á atvinnuleysisbótum.

Miðað við það geta starfsmenn íþróttafélaga, þjálfarar og aðrir starfsmenn á launaskrá íþróttafélaga sótt um hlutagreiðslur. Þegar starfshlutfall er lækkað um 20% hið minnsta en þó ekki neðar en í 25% koma þær tekjur sem hann fær vegna hins minnkaða starfs ekki til skerðingar atvinnuleysisbóta.

Ekki er hægt að sækja um hlutagreiðslurnar að svo stöddu, þar sem umsóknarformið er ekki tilbúið á vef vinnumálastofnunnar.

Áhrif COVID-19 á íþróttastarf

posted Mar 16, 2020, 7:42 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

(Tekið af vefsíðu UMFÍ)
"Landlæknir, sóttvarnarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra telur ekki ráðlagt að gera ráð fyrir því að íþróttastarf fyrir leik- og grunnskólabörn íþrótta- og ungmennafélaga fari af stað fyrr en mánudaginn 23. mars næstkomandi. Íþróttaiðkun framhaldsskólanema og fullorðinna er talin heimil að uppfylltum ákveðnum og ströngum skilyrðum.

Yfirvöld segja ljóst að að þessi skilyrði munu því miður útiloka æfingar fjölmargra íþróttagreina.

UMFÍ og ÍSÍ hafa átt í samskiptum við almannavarnir um helgina í tengslum við samkomubann sem sett verður á Íslandi í kvöld og varir næstu fjórar vikur til að fá svör við því hvort æfingar barna og yngri flokka megi fara fram."UMSE hvetur aðildarfélög sín, félagsmenn og iðkendur þeirra að fylgja og virða þau tilmæli sem koma frá yfirvöldum. Það er ljóst að töluverð röskun verður á íþróttastarfi inna hreyfingarinnar á meðan samkomubann er í gildi. Það er þó mikilvægt að allir leggist á eitt í þessum aðstæðum sem komið hafa upp.Ferkari upplýsingar er að finna á eftirfarandi vefsíðum og tenglum:

Ungmennafélag Íslands: www.umfi.is

Íþrótta- og ólympíusamband Íslands: www.isi.is

Embætti landlæknis: www.landlaeknir.is/

Upplýsingar um Covid-19 á Íslandi: www.covid.is/


Ábending frá ÍSÍ

posted Mar 4, 2020, 2:22 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

http://www.isi.is/
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands vill vekja athygli á leiðbeiningum sóttvarnarlæknis í tengslum við kórónaveiruna og hvetur sambandsaðila að fylgjast með nýjustu uppfærslum varðandi skilgreiningar á áhættusvæðum. Þeir sambandsaðilar sem hyggja á ferðalög með íþróttahópa ættu að kynna sér allar upplýsingar varðandi smitsvæði á vefsíðu Embættis landlæknis. ÍSÍ bendir sambandsaðilum sínum á að fylgja ráðleggingum sóttvarnalæknis um sóttkví vegna kórónuveirunnar hafi aðilar verið á skilgreindum áhættusvæðum. Bent er á að mælst er til þess að þeir sem hafi verið nýlega á þessum áhættusvæðum fari fjórtán daga sóttkví og hafi samband við Læknavaktina í síma 1700 eða sína heilsugæslustöð. Hafa ber í huga þau áhrif sem aðgerðir stjórnvalda á áhættusvæðum geta haft á ferðaáætlanir og fylgjast vel með fréttum, þarlendis og á vef Embættis landlæknis þar sem skilgreiningar á svæðum með viðvarandi smit geta breyst hratt.

 


 

Sóttvarnalæknir mælist til þess að fólk hugi vel að persónulegu hreinlæti (handþvottur, klútur fyrir vit við hnerra eða hósta). Almenningur getur með auðveldum hætti dregið úr sýkingarhættu með því að gæta vel að sínu persónulega hreinlæti. Handþvottur og almennt hreinlæti í kringum augu, net og munn eru lykilatriði til að forðast smit og fækka smitleiðum.

 

Amanda kjörin íþróttamaður UMSE annað árið í röð

posted Jan 21, 2020, 3:07 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

Kjöri Íþróttamanns UMSE var lýst laugardaginn 18. janúar í Þelmerkurskóla. Amanda Guðrún Bjarnadóttir, frá Golfklúbbnum Hamri, var kjörin íþróttamaður UMSE 2019. Þetta er annað árið í röð sem Amanda er kjörin. Hún var jafnframt útnefnd Golfmaður UMSE 2019.
Í öðru sæti í kjörinu var frjálsíþróttamaðurinn Guðmundur Smári Daníelsson, úr Umf. Samherjum og í þriðja sæti var Mikael Máni Freysson, frisbígolfari úr Umf. Samherjum.

Í kjörinu voru:
Amanda Guðrún Bjarnadóttir, Golfíþróttamaður UMSE.
Andrea Björk Birkisdóttir, Skíðamaður UMSE.
Bjarki Fannar Stefánsson, Tilnefndur fyrir góðan árangur í                    hestaíþróttum.
Elín Björk Unnarsdóttir, Sundmaður UMSE.
Guðmundur Smári Daníelsson, Frjálsíþróttamaður UMSE.
Heiðmar Örn Sigmarsson, Borðtennismaður UMSE.
Friðrik Örn Ásgeirsson, Bandýmaður UMSE.
Mikael Máni Freysson, Frisbýgolfmaður UMSE.
Ivalu Birna Falck-Petersen, Badmintonmaður UMSE.
Svavar Örn Hreiðarsson, Hestaíþróttamaður UMSE.
Sveinn Margeir Hauksson, Knattspyrnumaður UMSE.Við þetta tækifæri voru einnig veittar viðurkenningar vegna góðs árangurs í íþróttum. Þær viðurkenningar hljóta þeir einstaklingar eða hópar sem hafa unnið til Íslandsmeistara- eða bikarmeistaratitla, sett Íslandsmet, átt sæti í landsliðum, afreks- eða úrvalshópum sérsambanda eða hafa unnið Landsmóts- eða Unglingalandsmótstitla á árinu 2019.

Eftirfarandi einstaklingar hlutu viðurkenningar:
Amanda Guðrún Bjarnadóttir, Kvennalandslið Íslands í golfi og Íslandsmeistari í höggleik 19-21 árs.
Andri Már Mikaelsson, í landsliði Íslands í Bandý.
Auðunn Arnarsson, í landsliði Íslands í Bandý.
Dagur Ýmir Sveinsson, unglingalandsmótsmeistari í strandblaki 13-14 ára.
Erla Adolfsdóttir, Íslandsmeistari í öldungaflokki GSÍ, karlar 65+.
Friðrik Örn Ásgeirsson, í landsliði Íslands í Bandý.
Jóhann Peter Andersen, Íslandsmeistari í öldungaflokki GSÍ, karlar 65+.
Jónas Hjartarson, í landsliði Íslands í Bandý.
Kristín Erna Jakobsdóttir, unglingalandsmótsmeistari Fatlaðra í 60 metra hlaupi, 600 metra hlaupi, langstökki         og kúluvarpi stúlkna 14 ára og  í 50 metra baksundi, 100 metra bringusundi og 100 metra skriðsundi.
Hafþór Andri Sigrúnarson, í afrekshóp Bandýnefndar Íslands.
Heiðmar Örn Sigmarsson, í unglingalandsliðshóp Borðtennissambands Íslands.
Jónas Godsk Rögnvaldsson, í afrekshóp Bandýnefndar Íslands.
Markús Máni Pétursson, unglingameistari í stórsvigi 12 ára drengja, unglingalandsmótsmeistari í 100 metra            hlaupi pilta 13 ára og strandblaki 13-14 ára.
Ólafur Ingi Sigurðsson, í landsliði Íslands í Bandý.
Pétur Elvar Sigurðsson, í landsliði Íslands í Bandý.
Róbert Andri Steingrímsson, í landsliði Íslands í Bandý.
Sigmundur Rúnar Sveinsson, í landsliði Íslands í Bandý.
Sveinn Margeir Hauksson, úrtakshópur U19 Knattspyrnusamband Íslands.
Trausti Freyr Sigurðsson, í unglingalandsliðshóp Borðtennissambands Íslands.
Úlfur Hugi Sigmundsson, í unglingalandsliðshóp Borðtennissambands Íslands.
Þorsteinn Jón Thorlacius, í landsliði Íslands í Bandý.
Landsmótsmeistarar 50+ í Bridds.
        o Hákon Viðar Sigmundsson.
        o Kristján Þorsteinsson.
        o Kristinn Kristinsson.
        o Gylfi Pálsson.

Aðal styrktaraðili UMSE, Bústólpi ehf., veitir í samstarfi við stjórn UMSE á hverju ári styrk vegna góðs árangurs í barna- og unglingastarfi. Að þessu sinni hlaut Skíðafélag Dalvíkur styrkinn.

Stjórn UMSE óskar öllum verðlauna- og viðurkenningahöfum til hamingju með árangurinn og þakkar þeim sem komu að kjöri Íþróttamans UMSE 2019 kærlega fyrir veittan stuðning.

 


Kjöri íþróttamanns UMSE lýst laugardaginn 18. janúar

posted Jan 14, 2020, 3:14 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

Kjöri íþróttamanns UMSE 2019 verður lýst laugardaginn 18. janúar. Viðburðurinn fer fram í Þelamerkurskóla og hefst kl. 13:00. Veittar verða viðurkenningar til þeirra íþróttamanna sem eru í kjörinu og eru útnefndir íþróttamenn íþróttagreina.

Í kjöri til íþróttamanns UMSE eru að þessu sinni 11 íþróttamenn.

 • Amanda Guðrún Bjarnadóttir, Golfmaður UMSE 
 • Andrea Björk Birkisdóttir, Skíðamaður UMSE
 • Bjarki Fannar Stefánsson, Fyrir góðan árangur í hestaíþróttum
 • Elín Björk Unnarsdóttir, Sundmaður UMSE
 • Friðrik Örn Ásgeirsson, Bandýmaður UMSE
 • Guðmundur Smári Daníelsson, Frjálsíþróttamaður UMSE
 • Heiðmar Örn Sigmarsson, Borðtennismaður UMSE
 • Ivalu Birna Falck-Petersen, Badmintonmaður UMSE
 • Mikael Máni Freysson, Frisbígolfmaður UMSE
 • Svavar Örn Hreiðarsson, Hestaíþróttamaður UMSE
 • Sveinn Margeir Hauksson, Knattspyrnumaður UMSE

Einnig verða veittar viðurkenningar fyrir góðan árangur í íþróttum á árinu 2019.

Stjórn UMSE útnefnir íþróttamenn hverrar íþróttagreinar, út frá tillögum aðildarfélaga og tilnefnir í kjörið. Stjórnar- og varastjórnarmenn UMSE hver fyrir sig og stjórnir aðildarfélaganna hver fyrir sig kjósa svo íþróttamann UMSE í leynilegri kosningu.

Jólakveðja

posted Dec 24, 2019, 2:05 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE


Í dag fer fram 800. stjórnarfundur UMSE

posted Dec 3, 2019, 2:54 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE   [ updated Dec 3, 2019, 2:55 AM ]

Stjórn UMSE hittist að jafnaði einu sinni í mánuði allt árið um kring. Í dag er venjan að allir í bæði aðal- og varastjórn eru boðaðir til fundar. Þannig er varastjórnarfólk að fullu þátttekndur í þeim umræðum sem framfara.

Fyrir nokkrum árum kannaði Kristlaug María Valdimarsdóttir ritari UMSE aðeins sögu stjórnarfunda UMSE og samkvæmt því eru bókaðir stjórnarfundir orðnir 799 talsins.

Í dag fer því fram fundur númer áttahundruð, á þeim 97 árum sem UMSE hefur starfað.

Frekari upplýsingar um stjórnarfólk UMSE, vinnureglur og aðrar upplýsingar um stjórn UMSE er að finna hér.

1-10 of 334