Fréttir


Skrifstofa UMSE lokuð til 17. ágúst

posted by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

Vegna sumarleyfa verður skrifstofa UMSE lokuð til 17. ágúst.

Ef erindið er brýnt má hafa samband við:
Sigurð Eiríksson, formann UMSE sigeriks@gmail.com
Einar Hafliðason, gjaldkera UMSE einarhaf@gmail.com


Tilmæli yfirvalda varðandi íþróttastarf

posted Aug 5, 2020, 2:18 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

31. júlí voru samkomur voru takmarkaðar frekar. Yfirvöld hafa vegna þessa gefið út tilmæli um íþróttastarf fullorðinna.
 
Hertar aðgerðir um takmörkun á samkomum vegna farsóttar tóku gildi í dag, föstudaginn 31. júlí og gilda þau til 13. ágúst næstkomandi. Hertar aðgerðir miða að því að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins.

Tilmæli hafa jafnframt borist frá yfirvöldum um áhrif hertra aðgerða á íþróttastarf fullorðinna (þ.e. þeirra sem eru fæddir árið 2004 og eldri).


Tilmælin í hnotskurn:
  • Að gert verði hlé á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til 13. ágúst næstkomandi eða þar til núgildandi auglýsing um takmarkanir á samkomum fellur úr gildi.
  • Að æfingar og keppni í íþróttum án snertingar haldi áfram eftir því sem hægt er, að virtum reglum um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra.
  • Að sameiginlegur búnaður verði sótthreinsaður milli notkunar/notenda.

Fjöldasamkomur, þar sem fleiri en 100 einstaklingar koma saman, eru óheimilar á gildistíma auglýsingarinnar. Reglurnar gilda jafnt um opinber rými og einkarými. Íþróttaviðburðir eru þar með taldir.
Ákvæðið um fjöldatakmörkun tekur ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.

Skylt er að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi.

Ákvæði um nálægðartakmörkun (4. grein) tekur þó ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar. 

Sameiginlegur búnaður, s.s. í íþróttastarfi skal sótthreinsaður milli notenda.


Ítarlegri upplýsingar á www.covid.is.

Íþrótta- og ungmennafélög eru hvött til að fara að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og að viðhafa allar nauðsynlegar sóttvarnir til að sporna gegn útbreiðslu COVID-19.

Unglingalandsmóti UMFÍ frestað um ár

posted Jul 14, 2020, 8:31 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

Framkvæmdanefnd Unglingalandsmóts UMFÍ hefur ákveðið í samræmi við sóttvarnarlækni og Almannavarnir að fresta mótinu á Selfossi um ár. 
íþrótta- og fjölskylduhátíðin hefur verið ein af stærstu og fjölmennustu hátíðunum um verslunarmannahelgina og undirbúningur mótsins hefur staðið yfir um langt skeið. Dagskráin var fullkláruð og átti að bjóða upp á um 20 keppnisgreinar alla verslunarmannahelgina og tónleika á kvöldin ásamt fjölda annarra viðburða og afþreyingar. 
Ómar Bragi, framkvæmdastjóri mótsins segir mótshaldara harma þessa niðurstöðu. En ákvörðunin sé vel ígrunduð og með almannahagsmuni í huga.

Nánar á www.umfi.is

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs

posted Jul 13, 2020, 2:51 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSESamskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs tók til starfa á vormánuðum eftir að mennta- og menningarmálaráðuneytið setti lög um starfið síðastliðið haust. Samskiptaráðgjafi hefur það markmið að auka öryggi í íþrótta- og æskulýðsstarfi barna, ungmenna og fullorðinna. Markmiðið er að allir geti tekið virkan þátt á sínum vettvangi og jafnframt leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem hafa átt sér stað án þess að óttast afleiðingar.

Þjónusta og ráðgjöf samskiptaráðgjafa stendur öllum þeim til boða sem tilheyra skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi á landinu. Til samskiptaráðgjafa er hægt að leita með mál er varða andlegt-, líkamlegt- og kynferðislegt ofbeldi og áreitni, einelti og önnur sambærileg tilvik sem hafa komið upp á vettvangi íþrótta- eða æskulýðsstarfs. Einnig mun samskiptaráðgjafi koma á samræmdum viðbragðsáætlunum á landsvísu í þessum málaflokkum.

 

Starfi samskiptaráðgjafa sinnir Sigurbjörg Sigurpálsdóttir sem er klínískur sálfræðingur með aðsetur í húsnæði Domus Mentis- Geðheilsustöðvar. Hægt er að hafa beint samband við hana og er hún með símatíma alla þriðjudaga kl. 10-11, í síma 839-9100. Utan þess tíma er hægt að hringja í símanúmerið en ekki alltaf öruggt að ná samtali. Einnig er hægt að senda tölvupóst á sigurbjorg@dmg.is sem verður svarað eins fljótt og hægt er.

 

Eftir samtal eða fyrstu samskipti við samskiptaráðgjafa er boðið upp á viðtal ef málið varðar áreitni, ofbeldi eða einelti. Þá er frekari upplýsinga aflað og í kjölfarið eru næstu skref ákveðin, ávallt í samráði við þann sem leitar til samskiptaráðgjafa. Einnig er hægt að leita eftir ráðgjöf hjá samskiptaráðgjafa, ekki þarf að fara lengra með mál ef viðkomandi kýs það ekki.

 

Samskiptaráðgjafi er óháður aðili sem getur aðstoðað og leiðbeint einstaklingum sem telja sig hafa verið beittir ofbeldi eða misrétti í íþrótta- eða æskulýðsstarfi. Þjónusta samskiptaráðgjafa er gjaldfrjáls.

Heimasíða samskiptaráðgjafa er https://www.samskiptaradgjafi.is/ og mun hún þjóna sem upplýsinga- og fræðslusíða starfsins. Hægt er að setja sig í samband við samskiptaráðgjafa í gegnum síðuna, tilkynna atvik og fá ráðgjöf eða aðrar upplýsingar.

Kamil Michal Gorajek setti þrjú UMSE sveinamet

posted Jul 13, 2020, 2:44 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE   [ updated Jul 13, 2020, 2:45 AM ]

Aldursflokkameistaramót Íslands, AMÍ í sundi fór fram í Ásvallalaug í Hafnarfirði dagana 3. - 5. júlí. Einn keppandi fór frá Sundfélaginu Rán. Kamil Michal Gorajek setti þrjú UMSE sveinamet á mótinu. Í 100 m bringusundi bætti hann sinn fyrri besta tíma um sex sekúndur og synti á tímanum 1:42.76. Hann hafnaði í 10 sæti í flokki sveina 12 ára og yngri. Í sama sundi setti hann UMSE sveinamet í 50 m bringusundi á tímanum 48.00. Flottur tími. Einnig setti setti Kamil UMSE sveinamet í 200 m bringusundi þar sem hann synti á tímanum 3:40.61. Bætti hann gamla metið í því sundi um sex sekúndur. Fyrri UMSE sveinametin átti Þorri Mar Þórisson. Kamil hafnaði í 9 sæti í flokki sveina 12 ára og yngri. Þess má geta að Kamil átti 11 ára afmæli á sunnudeginum, daginn sem hann synti m 200 m bringusund. Í 100 m skriðsundi hafnaði Kamil í 14 sæti á tímanum 1:36.79.

Í stigakeppninni hafnaði Sundfélagið Rán í 12 sæti af 15 félögum sem sendu keppendur á mótið. Sundfélag Hafnarfjarðar, SH stóð uppi sem sigurvegari í stigakeppni félaga.Þorvaldsdalsskokkið á morgun 4. júlí

posted Jul 3, 2020, 5:23 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE


Á morgun, 4. júlí fer Þorvaldsdalsskokkið fram í 27. sinn.
Þorvalsdalsskokkið, elsta skipulagða óbyggðahlaup landsins, verður á sínum stað 4. júlí. Það stefnir í frábært hlaup og nú þegar metfjöldi þátttakenda skráður. Samstarf er við Landvættaverkefni Ferðafélags Íslands um hlaupið og verða að þessu sinni þrjú hlaup.


Skráning fer fram á hlaup.is. Forskráningu lýkur föstudaginn 3. júlí kl. 20:00.


Nýjir samstarfsaðilar hafa nú bæst í hópinn. Eftirfarandi aðilar starfa með okkur að þessu sinni:

Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi 31. júlí – 2. ágúst

posted Jun 24, 2020, 7:23 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

www.ulm.is


Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Selfossi um verslunarmannahelgina 2020 dagana 31. júlí – 2. ágúst. Mótið er haldið í samstarfi við HSK og Sveitarfélagið Árborg. Mótið hefur sannað gildi sitt sem glæsileg vímuefnalaus fjölskyldu- og íþróttahátíð þar sem saman kemur fjöldi barna og ungmenna með fjölskyldum sínum.

Mótið er fyrir 11-18 ára börn og ungmenni sem reyna fyrir sér í fjölmörgum íþróttagreinum. Á Unglingalandsmóti UMFÍ verður að þessu sinni boðið upp á 22 frábærar greinar og viðburði frá morgni til kvölds. Boðið verður upp á fjölbreytta skemmtun fyrir alla fjölskylduna, leikjatorg og fleiri viðburði.

Á meðal greina eru hlaupaskotfimi (biathlon), bogfimi, fimleikar, frisbígolf, frjálsar íþróttir, götuhjólreiðar, kökuskreytingar og knattspyrna auk rafíþrótta. Á hverju kvöldi verða svo tónleikar með landsþekktu tónlistarfólki.

 

Skráning hefst á www.ulm.is 1. júlí.

Ítarlegri upplýsingar á www.ulm.is

Lilja Guðnadóttir formaður Hrings

posted Jun 9, 2020, 6:07 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

Aðalfundur Hmf. Hrings var haldinn í gærkvöldi í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Þ
ar voru kosin formaður Lilja Guðnadóttir og Elín María Jónsdóttir í aðalstjórn.
Fráfarandi þær Lilja Björk og Bergþóra gáfu ekki kost á sér áfram í stjórn.
Hjörleifur Sveinbjarnarson gaf kost á sér áfram sem varamaður í stjórn og var hann, ásamt Þóri Áskelsyni kosinn varamaður stjórnar.


Stjórn Hmf. Hrings skipa nú:
Lilja Guðnadóttir, formaður.
Sævaldur Jens Gunnarsson
Brynhildur Heiða Jónsdóttir
Þorsteinn Hólm Stefánsson
Elín María Jónsdóttir

Varamenn:
Þórir Áskelsson
Hjörleifur Sveinbjarnarson

Skoðunarmenn voru kosnir Skarphéðinn Pétursson og Guðmundur Kristjánsson.

Ég vil nota hér tækifærið og þakka öllum félagsmönnum fyrir samstarfið undanfarin ár og óska nýrri stjórn velfarnaðar og gæfu í störfum sínum.
Lilja Björk Reynisdóttir fráfarandi formaður

Umfjöllun um Þorvaldsdalsskokkið í Skinfaxa

posted May 18, 2020, 6:20 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

Í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ, er ýtarleg umfjöllun um Þorvaldsdalsskokkið. 4. júlí verður skokkið haldið í 27. sinn. Skráning í hlaupið er í fullum gangi og er met fjöldi þátttakenda nú þegar skráður. Að þessun sinni er samstarf við Landvætti,verkefni Ferðafélag Íslands.

Nálgast má frekari upplýsingar um skokkið á heimasíðu þess:  http://thorvaldsdalur.umse.is/


Hjólað í vinnuna 6.-26. maí

posted May 5, 2020, 2:47 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

Nú styttist í að vinnustaðakeppnin Hjólað í vinnuna 2020 hefjist í átjánda sinn en að þessu sinni fer keppnin fram frá 6. - 26. maí.

Verkefnið Hjólað í vinnuna fer fram 6.-26. maí nk. Opnað verður fyrir skráningar 22. apríl og hægt er að skrá sig allan tímann á meðan keppni stendur yfir eða fram til 26. maí. Hjólað í vinnuna er fyrir marga vorboðinn ljúfi. Þrátt fyrir sérstakar aðstæður í þjóðfélaginu núna er nauðsynlegt að huga vel að heilsunni og sinni daglegu hreyfingu. Fyrirtæki og stofnanir um allt land geta nú farið að huga að því að skrá vinnustaðinn til leiks og hvetja þannig allt starfsfólk til að vera með þrátt fyrir að fólk vinni jafnvel heiman frá sér. Mikilvægt er fyrir vinnustaði landsins að huga að starfsandanum á þessum fordæmalausu tímum og er verkefnið Hjólað í vinnuna góð leið til þess að hressa upp á stemninguna og þjappa hópnum saman, en auðvitað á sama tíma að virða 2 metra fjarlægðarmörkin. Útfærslan er einföld. Fólk gengur, hjólar eða ferðast með öðrum virkum hætti þá vegalengd er samsvarar vegalengd til og frá vinnu og skráir þá kílómetra inn í kerfið. Hægt er að byrja eða enda vinnudaginn á því að ganga eða hjóla til og frá vinnu.

Markmið verkefnisins er að huga að daglegri hreyfingu ásamt því að vekja athygli á virkum ferðamáta og eru hjólreiðar bæði virkur og umhverfisvænn ferðamáti. Hjólreiðar eru frábær útivist, hreyfing og líkamsrækt. Munum bara að halda góðri fjarlægð á milli annarra hjólreiðarmanna/-kvenna

Íþrótta- og Ólympíusamband Ísland hvetur landsmenn til að hreyfa sig daglega og ekki síst taka þátt í þessu skemmtilega verkefni sem Hjólað í vinnuna er.


Hjólakveðja,
Almenningsíþróttasvið Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Praktískar upplýsingar:
Keppt er í átta flokkum um flesta þátttökudaga hlutfallslega miðað við heildarfjölda starfsmanna á vinnustöðum og í liðakeppni um flesta kílómetra.
Aðalatriðið er að fá sem flesta með sem oftast, til að hjóla, ganga, taka strætó, nota línuskauta eða annan virkan ferðamáta.

Að skrá sig til leiks:

  1. Farið er inná vef Hjólað í vinnuna,
  2. Smellt er á Innskráning efst í hægra horninu
  3. Ef þú átt ekki aðgang nú þegar þá stofnarðu þinn eigin aðgang með því að skrá þig inn með Facebook eða búðu þér til notendanafn og lykilorð.
  4. Velja má á milli þess að stofna vinnustað (þarf að gera ef vinnustaðurinn finnst ekki í fellilista) eða stofna/ganga í lið (þá er búið að stofna vinnustaðinn).
  5. Skráningu lokið

Hægt er að nálgast ítarlegar skráningarleiðbeiningar inná vef Hjólað í vinnuna 

Nánari upplýsingar um Hjólað í vinnuna gefur Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ í síma: 514-4000 eða á netfangið hjoladivinnun@isi.is.

1-10 of 342