Fréttir


Hugum að heilsunni #verumhraust

posted Oct 28, 2020, 7:33 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

  Sumir hlutir fást ekki keyptir úti í búð, ekki einu sinni í nýjustu vefverslunum. Þar á meðal eru hreysti og heilsa.

 

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands - ÍSÍ fer nú af stað með skilaboðin #verumhraust á samfélagsmiðlum. ÍSÍ hvetur alla landsmenn til að sýna frumkvæði og sköpunargleði við að efla líkamlega og andlega heilsu sína á tímum kyrrsetu og tímabundinna takmarkana. Hreyfingu má stunda á hinum ýmsu stöðum og í margvíslegri mynd, utan dyra og innan. Benda má á göngutúra, útihlaup, styrktaræfingar, stafagöngur, fjallaferðir, línuskauta, hjólreiðar, sjósund, heimajóga eða þolfimi, en listinn er sannarlega lengri.

 

Þegar takmörkunum á íþróttastarfsemi hefur verið aflétt hvetjum við landsmenn svo til að prófa hinar ýmsu greinar skipulagðrar íþróttastarfsemi, en innan ÍSÍ eru 33 sérsambönd og þar eru stundaðar yfir 50 viðurkenndar íþróttagreinar.

 

Hvatningarátakið #verumhraust er vissulega sett í gang vegna heimsfaraldurs og yfirvöld heilbrigðismála hafa lagt á það ríka áherslu að þjóðin stundi almenna hreyfingu og að gott heilsufar skipti máli í orrustu við smitsjúkdóma. En átakið hefur ekki síður það langtímamarkmið að markviss hreyfing verði hluti af daglegu lífi sem allra, allra flestra.

Það má bæta heilsuna með því að þora, nenna og vilja. Athugaðu möguleikana í kringum þig, taktu tillit til eigin þarfa og getu og njóttu þess að beita kröftum, fimi og seiglu. Vellíðanin sem fylgir er óviðjafnanleg og betri heilsa eykur lífsgæði.


Nánar á vefsíður ÍSÍ

Ársþing UMSE 5. nóvember

posted Oct 26, 2020, 3:11 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

99. ársþing UMSE fer fram 5. nóvember. Þingið verður með breyttu sniði í vegna þess ástands sem ríkir í samfélaginu. Nýtt verður fjarfundartækni til þinghaldsins í fyrsta sinn og munum við fá aðstoð frá UMFÍ til verksins.
Fáar tillögur liggja fyrir þinginu í þetta skiptið og verður reynt að einfalda allt ferlið eins og mögulegt er.


Ný reglugerð tók gildi 20. okt.

posted Oct 21, 2020, 6:52 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

Ný reglugerð heilbrigðisráðuneytisins um takmörkun á samkomu hefur verið birt. Tekur hún gildi 20. október og gildir til 10. nóvember n.k.

Samkvæmt reglugerðinni er sem fyrr í gildi undanþága utan höfuðborgarsvæðisins fyrir æfingar og keppni í íþróttum sem heimilar snertingu á leikvellinum eða æfingum séu þær nauðsynlegur þáttur í iðkun íþróttarinnar. Hverju sérsambandi ber að setja sér reglur um æfingar og keppni meðan á takmörkununum stendur í samstarfi við ÍSÍ og sóttvarnaryfirvöld. Óheimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum.

Sérstakt bráðabirgðaákvæði er í gildi til 3. nóvember sem á við um höfuðborgarsvæðið. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu er íþróttastarf á vegum aðildarfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem krefst snertingar eða hætta er á snertingu óheimil. Ráðherra getur veitt undanþágu frá banninu fyrir einstaka viðburði, svo sem vegna alþjóðlegra keppnisleikja hér á landi, enda sé gætt fyllstu sóttvarnarráðstafana að öðru leyti. 

Í reglugerð um takmörkun á skólastarfi er tilgreint að íþróttastarf fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri þar með talið skólasund sem krefst snertingar og frekari blöndunar hópa en í skólastarfi er óheimilt til 3. nóvember.

Frétt á heimasíðu stjórnarráðsins má finna hér, auglýsingu heilbrigðisráðherra má finna í heild sinni hér. Minnisblað sóttvarnarlæknis sem á við um reglugerðina má finna hér.

Ný tilmæli sóttvarnalæknis og ríkislögreglustjóra varðandi íþróttastarf

posted Oct 8, 2020, 4:28 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

Sóttvarnarlæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafa sent tilmæli til íþróttahreyfingarinnar á höfuðborgarsvæðinu um að 
Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu geri hlé á æfingum og keppni í öllum íþróttum og íþróttafélög innan borgarmarka að fresta keppnisferðum út á land, samkvæmt því er fram kemur í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Í tilkynningunni ítreka al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra til­mæli sín vegna auk­ins fjölda kórór­ónu­veiru­smita sem helst er að finna á höfuðborg­ar­svæðinu. Í til­kynn­ing­unni kem­ur fram að fjöldi smita hafi aukið lík­ur á veld­is­vexti í far­aldr­in­um. Bú­ast má við að töl­ur um fjölda smita verði háar næstu daga.

Til­mæl­in eru eft­ir­far­andi og orðrétt:

 • Hvetj­um alla á höfuðborg­ar­svæðinu til að vera eins mikið heimavið og kost­ur er.
 • Ekki vera á ferðinni til eða frá höfuðborg­ar­svæðinu nema nauðsyn sé til.
 • Verj­um viðkvæma hópa og tak­mörk­um heim­sókn­ir til ein­stak­linga í áhættu­hóp­um eins og hægt er.
 • Tak­mörk­un fjölda í búðum – einn fari að versla frá heim­ili ef kost­ur er
 • Hvatt er til þess að þeir sem standi fyr­ir viðburðum á höfuðborg­ar­svæðinu fresti þeim
 • Klúbb­ar, kór­ar, hlaupa­hóp­ar, hjóla­hóp­ar og aðrir hóp­ar sem koma sam­an geri hlé á starf­semi sinni.
 • All­ir staðir á höfuðborg­ar­svæðinu þar sem al­menn­ing­ur á er­indi herði all­ar sín­ar sótt­varn­araðgerðir, tak­marki eins og hægt er fjölda, tryggi að all­ir geti sótt­hreinsað hend­ur við inn­ganga, sótt­hreinsi snertifleti og gæti vel að hægt sé að virða fjar­lægðarmörk.
 • Íþrótta­fé­lög á höfuðborg­ar­svæðinu geri hlé á æf­ing­um og keppni í öll­um íþrótt­um.
 • Íþrótta­fé­lög á höfuðborg­ar­svæðinu fresti keppn­is­ferðum út á land.
 • All­ir sem finni fyr­ir hinum minnstu ein­kenn­um haldi sig heima, fari í sýna­töku og líti á að þeir séu í ein­angr­un þar til nei­kvæð niðurstaða úr sýna­töku liggi fyr­ir.
Á fundi framkvæmdastjórnar ÍSÍ sem fram fór fyrir skammri stundu var samþykkt að beina því til íþróttahreyfingarinnar á höfuðborgarsvæðinu að fara að tilmælum sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Jafnframt að beina því til íþróttahreyfingarinnar í heild að taka tillit til þeirra aðstæðna sem skapast hafa á höfuðborgarsvæðinu og þeirra aðgerða sem sérsambönd ÍSÍ hafa þurft að grípa til í kjölfarið.

Á vef stjórnarráðs Íslands hefur verið birt frétt um COVID-19: Um reglur og tilmæli.

Tilmæli sóttarnarlæknis fela í sér beiðni til fólks um að sýna samstöðu og þá e.t.v. ganga lengra en þarf samkvæmt laganna bókstaf.

Nánar er hægt að kynna sér um málið á vefsíðum UMFÍ, ÍSÍ og stjórnarráðsins:

Ferðastyrkir UMSE, umsóknarfrestur til 30. nóvember

posted Oct 8, 2020, 3:37 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE   [ updated Oct 8, 2020, 3:41 AM ]

Á 808. stjórnarfundi UMSE í gær var samþykkt að framlengja umsóknarfrest um ferðastyrki til 30. nóvember.

Stjórn UMSE veitir ferðastyrki til íþróttafólks innan UMSE vegna æfinga- og keppnisferða. Hægt er að sækja um fyrir einstaklinga eða hópa.
Stjórnin setur sér vinnureglur um þessa styrki og miðast þeir við fjárhag sambandsins að hverju sinni. Hver einstaklingur getur einungis fengið einn styrk á hverju ári. Íþróttafólk getur sótt sjálft um styrkinn til stjórnar, en umsóknina þarf að staðfesta af forráðamanni íþróttafélagsins. Einnig geta aðildarfélög sótt um styrki fyrir hönd iðkenda.

Nánar um styrkveitingarnar og vinnureglur er að finna hér: http://www.umse.is/styrkir

Reglur enn hertar frá deginum í dag

posted Oct 5, 2020, 2:31 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE


Heilbrigðisráðuneytið hefur birt breyttar reglur um samkomutakmarkanir sem taka gildi á miðnætti. 
Hömlurnar ná ekki til barna í leik- og grunnskólum.

Samkvæmt reglunum eru keppnisíþróttir með snertingu áfram leyfðar með hámarksfjölda 50 einstaklinga að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Óheimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum innandyra. Utandyra er heimilt að hafa áhorfendur, allt að 100 í hverju rými, að því gefnu að gestir sitji í númeruðum sæti sem skráð eru á nafn og noti andlitsgrímu.

Eins metra nándartakmörkun verður í búningsklefum og öðrum svæðum íþróttafólks og skal sótthreinsa keppnisáhöld á milli notenda. Áhorfendur á íþróttaleikjum eru ekki leyfðir innandyra. Utandyra er heimilt að hafa áhorfendur - að hámarki 50 í hverju rými - 
Beðið er frekari fyrirmæla um þau skilyrði sem sett eru fyrir keppnisíþróttum með snertingu.


Hertari aðgerðir felast í að frá og með 5. október verði 20 manna fjöldatakmörkun með ákveðnum undantekningum og að líkamsræktarstöðvum verði lokað. Sundlaugar verða áfram opnar en með þrengri fjöldatakmörkunum eða 50% af leyfilegum fjölda samkvæmt starfsleyfi.

Tekið er fram í minnisblaði sóttvarnalæknis sem nýjar aðgerðir grundvallast á að engar hömlur gilda hjá börnum sem fædd eru 2005 og síðar heldur einungis hjá eldri einstaklingum. Um þá einstaklinga gildir 20 manna hámarksreglan og eins metra nándartakmörkun. Lögð verði áhersla á einstaklingsbundnar smitvarnir eins og kostur er. Sama gildir um æskulýðsstarf, íþróttir og tómstundir leik- og grunnskólabarna.

 
Nánari upplýsingar má nálgast á:

25. sept tók ný reglugerðarbreyting gildi

posted Sep 28, 2020, 4:05 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

25. sept tók reglugerðarbreyting heilbrigðisráðherra verið gefin út. Engar breytingar eru sem snúa að íþróttastarfinu frá fyrri reglugerð aðrar en þær að gildistími er nú til 18. október.

Sem fyrr munu sérsambönd ÍSÍ uppfæra sínar reglur og gildistíma miðað við uppfærslu ráðherra og fá staðfestingu sóttvarnaryfirvalda og ÍSÍ.

Verndum þau, netnámskeið 1. október

posted Sep 24, 2020, 3:43 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE


Æskulýðsvettvangurinn býður upp á námskeiðið Verndum þau á netinu þar sem kennt er hvernig bregðast á við grun um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og ungmennum.

Námskeiðið verður haldið 1. október 2020.

Æskulýðsvettvangurinn hefur frá árinu 2010 staðið fyrir námskeiðinu "Verndum þau" fyrir þau félagasamtök sem saman mynda vettvanginn og aðra áhugasama. Námskeiðið er byggt á efni samnefndrar bókar og fjallar um hvernig bregðast eigi við grun um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og ungmennum.

Á námskeiðinu er m.a farið yfir:

 • Tilkynningaskyldu starfsmanna sem vinna með börnum og unglingum.
 • Líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi og vanrækslu hvers konar.
 • Hvernig taka skuli á móti ofbeldisfrásögn.
 • Reglur í samskiptum við börn og ungmenni.
 • Ýmis atriði sem gott er fyrir vinnuveitendur að hafa í huga.
 • Úrræði sem í boði eru í samfélaginu fyrir börn og ungmenni sem eru þolendur ofbeldis.
Höfundar bókarinnar, Ólöf Ásta Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðingur og Þorbjörg Sveinsdóttir, sálfræðingur, sjá um kennslu á námskeiðinu. Báðar starfa þær í Barnahúsi og hafa mikla reynslu af barnaverndarmálum.

Æskulýðsvettvangurinn hefur ákveðið, í ljósi stöðunnar í samfélaginu, að bjóða upp á námskeiðið í gegnum netið þessa önnina. Námskeiðið verður haldið þann 1. október 2020 og hefst kl. 17:00. Gert er ráð fyrir því að námskeiðið taki rúma tvær klukkustundir.

Mikilvægt er að þátttakendur á námskeiðinu skrái sig eigi síðar en 30. september n.k.

Takmarkað magn af sætum er í boði. Þátttakendur fá senda slóð á námskeiðið í tölvupósti sama dag og námskeiðið fer fram.

Vinsamlegast athugið að einungis verður um eitt námskeið að ræða haustið 2020.Nánar á www.umfi.is

Umsóknarfrestur í íþróttasjóð til 1. október

posted Sep 10, 2020, 2:36 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSEOpnað hefur verið fyrir umsóknir í Íþróttasjóð og er frestur til að senda inn umsókn til 1. október.

Styrkirnir eru ætlaðir íþrótta- og ungmennafélögum á landinu til að bæta aðstöðu til íþróttaiðkana. Einnig eru styrkir til útbreiðslu- og fræðsluverkefna, að þessu sinni verður horft sérstaklega til verkefna sem stuðla að jafnrétti í íþróttum. Þá eru veittir styrkir til að stunda rannsóknir á ýmsum þáttum íþróttastarfsemi í landinu.

Málaflokkarnir eru þrír og eru sem hér segir:

 • Sérstök verkefni íþróttafélaga og samtaka þeirra sem miða að því að bæta aðstöðu til íþróttaiðkana.
 • Útbreiðsla- og fræðsluverkefni og skal einkum lögð áhersla á verkefni sem uppfylla einhver eftirfarinna skilyrða;
 • Stuðla að nýsköpun og eflingu íþróttastarfs fyrir börn og unglinga og sérstök áhersla verður að þessu sinni á verkefni sem stuðla að jafnrétti í íþróttum.
 • Eflingu þekkingu þjálfara og leiðbeinenda í íþróttastarfi
 • Auka gildi íþróttastarfs í forvörnum.
 • Auka veg og virðingu íþróttastarfs í samfélaginu.
 • Íþróttarannsóknir.

Nánar um íþróttasjóð og upplýsingar um umsóknarferlið er að finna á vefsíðu Rannís: 

7. september tóku gildi breytingar á reglum og nálægðartakmörkunum

posted Sep 10, 2020, 2:12 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

Upplýsingar fengnar frá vefsíðu ÍSÍ
7. september var birt ný auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Auglýsingin gildir til 27. september. Markmið breytinganna sem nú taka gildi er eftir sem áður að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19. Sérsamböndum ÍSÍ ber að setja reglur um æfingar og keppni í sinni grein, með samþykki sóttvarnaryfirvalda, þar sem skilgreint er hvernig iðkun íþróttarinnar geti farið fram með þeim takmörkunum sem gilda.

Með nýrri auglýsingu er ekki breyting á ákvæðum er eiga við skilyrði fyrir æfingum og keppni. Þegar auglýsingin tekur gildi breytast fjarlægðarviðmið og verða þau nú 1 metri í stað 2 metra reglu sem áður var í gildi. Við iðkun íþrótta er það eingöngu á æfinga/keppnissvæði sem undanþága er veitt fyrir nálægðartakmörkunum.

Líkt og í síðustu reglum er heimild fyrir áhorfendum á íþróttaviðburðum með ákveðnum skilyrðum. Skilyrðin eru nú að 1 metra reglan gildi milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum og að ekki séu nema 200 manns að hámarki í hverju rými. Rými þurfa að vera algjörlega aðskilin með a.m.k. 2 metra háu skilrúmi eða 2 metra bili sem ekki er hægt að fara yfir. Hvert skilgreint rými þarf að hafa eigin inngang og útgang og enginn samgangur er heimilaður á milli rýma. Miðasala, salerni, veitingasala og önnur þjónusta sem í boði er skal vera aðskilin fyrir hvert rými fyrir sig.

Sem fyrr eiga ákvæði um fjölda- og nálægðartakmarkanir eingöngu við um fullorðna, þ.e.a.s. þau eiga ekki við um börn fædd árið 2005 og síðar.

Eins og fram kemur í auglýsingu ráðherra er rík áhersla lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir og almennar smitvarnir með tíðum og reglubundnum þrifum þar sem fólk kemur saman.

ÍSÍ hvetur íþróttahreyfinguna til að fara að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og að viðhafa allar nauðsynlegar sóttvarnir. Verum ábyrg! 

Auglýsinguna og minnisblað sóttvarnarlæknis er í heild sinni að finna hér fyrir neðan:


1-10 of 357