Fréttir‎ > ‎

90. ársþing UMSE

posted Mar 8, 2011, 6:04 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE

Ársþing UMSE fór fram í Þelamerkurskóla, 5. mars s.l. Þingið fór nokkuð vel fram og umræður um þær tillögur sem fram voru lagðar voru með líflegra móti. Þingfulltrúar voru frá 10 af 12 aðildarfélögum og skapaðist umræða á þinginu meðal fulltrúa að aðildarfélögin yrðu að gera betur í þátttöku sinni á þinginu, en einungis voru 28 af 54 mögulegum fulltrúum mættir.

Gestir þingsins voru Helga g. Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, Viðar Sigurjónsson, sviðsstjóri fræðslusviðs ÍSÍ, Guðmundur Sigvaldason, sveitastjóri í Hörgársveit,  Árni Arnsteinsson, fulltrúi Búnaðarsambands Eyjafjarðar, Haukur Valtýsson varaformaður, ÍBA og Rannveig Oddsdóttir, f.h. UFA.

Heitastar umræður urðu um lottó úthlutun sambandsins til aðildarfélaga, en tillaga um reglugerðarbreytingu þess efnis lá fyrir þinginu. Segja má að fulltrúar hafi orðið sammála um að vera ósammála og var tillagan sem lá fyrir þinginu samþykkt, með þeirri breytingu að hún yrði tekin til endurskoðunar og yrði lögð fram á þingi á næsta ári. Þá var samþykkt að stofna nýjar nefndir innan UMSE og þær er fræðslunefnd, almenningsíþróttanefnd og afreksíþróttanefnd og verður þessum nefndum falið það hlutverk að móta stefnu í þeim viðfangsefnum sem að þeim lúta.

Helga G. Guðjónsdóttir, veitti Gesti Haukssyni gjaldkera Umf. Smárans starfmerki UMFÍ. Hauki Valtýssyni var veitt starfsmerki UMSE fyrir störf hans í þágu sambandsins.

Kosningar fóru vel fram.  Kjósa átti til varaformanns, gjaldkera og þriggja í varastjórn UMSE. Kristín Hermannsdóttir var endur kjörinn varaformaður, en hún gaf kost á sér til endurkjörs. Gjaldkeri sambandsins Anna Kristín Árnadóttir lét af störfum eftir 4 ára starf og í hennar stað var kjörinn Einar Hafliðason. Í varastjórn gáfu kost á sér til áframhaldandi setu Þorgerður Guðmundsdóttir og Birkir Örn Stefánsson, en Sigurður Bjarni Sigurðsson ekki. Þau Birkir og Þorgerður voru endurkjörin en í stað Sigurðar Bjarna var tók  Edda Kamilla Örnólfsdóttir sæti í varastjórn. UMSE þakkar fráfarandi stjórnarmönnum vel unnin störf í þágu sambandsins og býður þá nýju velkomna til starfa.

Í kaffisamsæti þingsins voru veittar viðurkenningar að venju. Kjörinn var íþróttamaður ársins 2010 og kom sá titill í hlut Björgvins Björgvinssonar, skíðamanns frá Skíðafélagi Dalvíkur. Þá voru veittar um 35 viðurkenningar til íþróttamanna sem höfðu unnið Íslands-, landsmóts eða bikarmeistaratitla, komist í úrvals- eða afrekshópa  hjá sérsamböndum eða sett Íslandsmet á árinu 2010. Félagsmálabikar UMSE kom í hlut Umf. Samherja en sitjandi stjórn UMSE úthlutar þeim bikar til þess félags sem talið er að hafi starfað hvað best á í þágu félags- og íþróttamála á hverju ári. Þá var Þóri Áskelssyni veitt starfsmerki UMSE, fyrir vel unnin störf í þágu íþrótta á sambandssvæðinu.
Comments