Fréttir‎ > ‎

92. ársþing Ungmennasambands Eyjafjarðar

posted Mar 22, 2013, 5:20 PM by Óskar Vilhjálmsson   [ updated Mar 22, 2013, 5:23 PM ]
92. ársþing Ungmennasambands Eyjafjarðar, UMSE, var haldið í Valsárskóla á Svalbarðseyri laugardaginn 16. mars síðastliðinn.

Alls áttu 58 fulltrúar rétt til setu á þinginu; 53 frá aðildarfélögum og 5 frá aðalstjórn. Auk þess var gestum frá UMFÍ og ÍSÍ boðið að sitja þingið. Því miður mætti aðeins ríflega helmingur þeirra fulltrúa sem aðildarfélögin áttu kost á að senda á þingið og í framhaldinu var það rætt í fullri alvöru á þinginu hvort breyta ætti fyrirkomulagi þess í framtíðinni í þá átt að stytta það og halda jafnvel kvöldþing í miðri viku. Þó var gleðilegt að stór hluti þeirra fulltrúa sem sat þingið var að koma á ársþing UMSE í fyrsta skipti.

Ýmsar tillögur sem móta munu starf sambandsins á næsta ári voru teknar fyrir í starfsnefndum á þinginu og afgreiddar að loknum umræðum. Þá voru samþykktar breytingar á lögum sambandsins og reglugerð er snýr að Afreksmannasjóð.

Eitt nýtt félag sótti um aðild að UMSE á ársþinginu, Grjótglímufélagið á Dalvík. Var samþykkt að veita félaginu inngöngu í UMSE með fyrirvara um samþykki ÍSÍ og UMFÍ.

Kosið var um tvo menn í aðalstjórn; Einar Hafliðason gjaldkera og Kristínu Hermannsdóttur varaformann. Einar gaf kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og var endurkjörinn en Kristín gaf ekki kost á sér. Tillaga uppstillingarnefndar um að Edda Kamilla Örnólfsdóttir kæmi inn í stjórn í hennar stað var samþykkt samhljóða.
Þá voru þrír einstaklingar kosnir í varastjórn til eins árs; Svanbjört Brynja Bjarkadóttir, Guðrún Sigurðardóttir og Sigurður Eiríksson. 
Þingsstörfum lauk með glæsilegu kaffihlaðborði kvenfélags Svalbarðsstrandar. Í kaffinu voru veittar viðurkenningar til íþróttafólks sem skaraði fram úr á árinu í sinni grein.

Þá fór fram kjör íþróttamanns UMSE 2012 og hlaut Agnar Snorri Stefánsson, Hestamannafélaginu Hring, þá nafnbót að þessu sinni. Jakob Helgi Bjarnason Skíðafélagi Dalvíkur varð annar og Bessi Víðison Umf. Svarfdælum þriðji. Hestamannafélagið Hringur hlaut Félagsmálabikar UMSE.

Þá voru þrír einstaklingar sæmdir starfsmerki UMSE fyrir gott og mikið starf í þágu ungmennahreyfingarinnar. Það voru þau Starri Heiðmarsson, Umf. Æskunni, Birkir Örn Stefánsson, Umf. Æskunni og Sigríður Bjarnadóttir, Hestamannafélaginu Funa. Sigríður var jafnframt sæmd starfsmerki UMFÍ. 

Comments