Fréttir‎ > ‎

97. ársþing UMSE

posted Mar 27, 2018, 2:58 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE   [ updated Mar 27, 2018, 2:59 AM ]

Fimmtudaginn 22.mars fór 97. ársþing UMSE fram í félagsheimilinu Laugarborg í Eyjafjarðarsveit. Mjög vel var mætt á þingið en öll félög UMSE áttu fulltrúa á þinginu. Alls var mættur 31 fulltrúi af þeim 46 sem áttu rétt til setu.

Auk þingfulltrúa og starfsmanna þingsins voru mættir gestir frá Eyjafjarðarsveit, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og Ungmennafélagi Íslands. Þegar allt er talið sátu 44 aðilar þingið og verður því að segjast að þingið hafi verið vel sótt. Vel gert félagar UMSE.

Óvenju fá mál lágu fyrir á þinginu þetta árið. Þar má einna helst nefna breytingu á 8. grein í Fræðslu- og verkefnasjóði UMSE þess efnis að nú verður aðeins hægt að sækja um í sjóðinn einu sinni á ári, þ.e. fyrir 1. október. Úthlutun fer fram 1. nóvember. Þá var samþykkt tillaga á þinginu þar sem UMSE beinir því til aðildarfélaga sinna að þau gangi úr skugga um að þjálfarar og þeir aðilar sem stýra íþróttastarfi í félögunum séu með hreint sakavottorð. Það verði gert með því að óska eftir skriflegu samþykki viðkomandi þess efnis að fá aðgang að upplýsingum úr sakaskrá. UMFÍ mun aðstoða félögin við þetta eins og á þarf að halda.

Skýrsla stjórnar og reikningar félagsins voru samþykkt einróma á þinginu.

Á þinginu var fimm einstaklingum veitt heiðursviðurkenning frá UMSE. Þau Stefán Friðgeirsson, Guðrún Erna Rúdolfsdóttir og Christina Niewert Hestamannafélaginu Hring og Jónína Guðrún Jónsdóttir Umf. Svarfdæla hlutu starfsmerki UMSE. Kristjáni Ólafssyni formanni Umf. Svarfdæla var veitt gullmerki UMSE fyrir störf sín í þágu íþrótta- og ungmennafélagsmála. Stefáni Garðari Níelssyni, formanni knattspyrnudeildar Dalvíkur/Reynis var veitt starfsmerki UMFÍ. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands veitti Bjarnveigu Ingvadóttur gullmerki fyrir störf sín í þágu félagsins.

Guðmundi Steindórssyni var síðan færður þakklætisvottur frá stjórn UMSE fyrir störf í tengslum við skráningu gamalla gagna, flokkun skjala og að koma þeim í varðveislu á héraðsskjalasafnið.

Það voru þónokkrar breytingar í stjórn UMSE að þessu sinni. Nýir að koma inn og þeir sem fyrir voru að færast til í störfum. Bjarnveig Ingvadóttir gaf ekki kost á sér áfram sem formaður og var Sigurður Eiríksson Umf. Samherjum og varaformaður UMSE kosinn formaður. Þorgerður Guðmundsdóttir Umf. Samherjum,  meðstjórnandi UMSE var kosin varaformaður. Hólmfríður Gísladóttir, Sundfélaginu Rán, kemur ný inn í stjórn UMSE sem meðstjórnandi og Kristlaug Valdimarsdóttir Umf. Smáranum kemur ný inn í stjórn UMSE sem ritari en hún hefur gegnt því embætti áður.  Endurkjörin í varastjórn UMSE voru þau Guðrún Sigurðardóttir, Umf. Svarfdæla og Björgvin Hjörleifsson, Skíðafélagi Dalvíkur en ný inn kemur Edda Kamilla Örnólfsdóttir, Hestamannafélaginu Funa. Gjaldkeri stjórnar UMSE, Einar Hafliðason Umf. Þorsteini Svörfuði, er sá eini úr stjórn sem heldur sínum störfum áfram.

 

Sjóðsstjórn Fræðslu- og verkefnasjóðs UMSE er óbreytt frá síðasta ári en þá voru þau Hringur Hreinsson, Umf. Æskunni og Jóhanna Gunnlaugsdóttir, Umf. Þorsteini Svörfuði kjörin í stjórn sjóðsins ásamt einum fulltrúa sem stjórn UMSE tilnefnir. Anna Kristín Árnadóttir og Elín Margrét Stefánsdóttir, Hestamannafélaginu Funa, voru endurkjörnar -skoðunarmenn reikninga.

Uppstillingarnefnd fyrir næsta árþing munu skipa formenn Skíðafélags Dalvíkur, Umf. Smárans og Blakfélagsins Rima.

Skíðafélag Dalvíkur hlaut Félagsmálabikar UMSE.

Forsetar þingsins voru Sigmundur Guðmundsson og Jónas Vigfússon frá Umf. Samherjum og ritarar Jónína H. Gunnlaugsdóttir, Umf. Þorsteini Svörfuði, og Rósa Margrét Húnadóttir, Umf. Samherjum. Gestir þingsins voru Halldóra Magnúsdóttir formaður íþrótta- og tómstundanefndar Eyjafjarðarsveitar, Gunnar Gunnarsson, stjórnarmaður UMFÍ og Ingi Þór Ágústson, stjórnarmaður ÍSÍ.

Ársskýrsla UMSE 2017, sem gefin var út á þinginu, er nú aðgengileg hér á vefsíðu UMSE og verður þinggerðin sömuleiðis aðgengileg innan skamms.

Fleiri myndir af þinginu er að finna á Facebook síðu UMSE:

 
 
  
 
 
  


Comments