Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður hélt aðalfund sinn 2011 föstudaginn 3. júní. Nokkuð fjölmennt var á fundinum, eða 5 fundargestir auk 4 stjórnarmanna og 1 varastjórnarmanns. Margt var rætt líkt og jafnan áður, svo sem álegg á pítsur, brúsmót, mínígolf, kynjahlutfall, ástand fótboltavallarins, afmæli félagsins og margt fleira. Skipað var í nefndir (íþróttanefnd, sjoppunefnd og brennunefnd) og kosnir tveir nýir stjórnarmenn í stað Karls Inga Atlasonar (formanns) og Þorsteins Mikaels Gunnlaugssonar (ritara). Karl Ingi lét af formannsembættinu eftir 13 ára setu og eru honum færðar bestu þakkir fyrir gott og farsælt starf í þágu félagsins. Þorsteinn Mikael hætti sem ritari, þvingaður til þess að eigin sögn, en honum eru einnig færðar bestu þakkir fyrir stjórnarsetuna. Ný inn í stjórn komu þau Herbert Hjálmarsson til eins árs og Jónína Heiðveig Gunnlaugsdóttir til tveggja ára. Stjórnin hefur ekki skipt með sér verkum, það verður gert við fyrsta tækifæri eða þegar þurfa þykir. Stjórn: Jónína Heiðveig Gunnlaugsdóttir Herbert Hjálmarsson Gunnar Kristinn Guðmundsson Einar Hafliðason Jón Haraldur Sölvason Tillögur sem voru samþykktar: 1. Samþykkt að rukka ekki inn árgjöld fyrir árið 2011. 2. Samþykkt að félagið greiði æfingagjöld fyrir félagsmenn sem stunda frjálsar íþróttir og knattspyrnu undir handleiðslu menntaðs þjálfara. Upphæðin verði þó aldrei hærri en 15.000 kr. á ári fyrir félagsmann. 3. Samþykkt að halda Brúsmót í nafni félagsins í nóvember. Í lok fundar flutti fráfarandi formaður Karl Ingi kveðjuræðu þar sem hann fór yfir eitt og annað úr sinni stjórnartíð og las loks upp úr fundargerðarbókinni góðu sem nær aftur til ársins 1962. Á árunum eftir 1962 var verið að ræða hvort sameina ætti tvö ungmennafélög í Svarfaðardal, Umf. Atla (í framdalnum) og Umf. Þorstein Svörfuð (í miðsveitinni). Skipaðar höfðu verið sameiningarnefndir af hálfu beggja félaga og funduðu þær um málið. Greinilegt er á fundargerðarbókinni að ekki voru allir á eitt sáttir, enda fór svo að málið lognaðist út af og aldrei varð af sameiningunni. Umf. Atli er til enn þann dag í dag en er í raun aðeins húsfélag kringum samkomuhúsið Höfða. Einnig greindi Kalli frá því að á hverju ári frá því hann kom inn í stjórn fyrir 15 árum hafi verið rætt alvarlega um búningakaup en aldrei hafi orðið af því. Margt fleira var rætt en því verða ekki gerð frekari skil hér. |
Fréttir >