Landsmót UMFÍ 50+ fór fram um síðustu helgi á Húsavík. Mótið gekk vel og voru um 400 keppendur skráðir til leiks. Met þátttaka var frá UMSE í þetta skiptið og voru samtals 24 frá okkur sem kepptu í blaki, bridge, pönnukökubakstri, frjálsíþróttum, golfi og þríþraut. Sigríður S. Jónsdóttir frá Umf. Æskunni hélt uppteknum hætti frá síðasta stóra Landsmóti UMFÍ og sigraði í pönnukökubakstri. Dóra Kristín Kristinsdóttir og Gígja Kristín Kristbjörnsdóttir frá Golfklúbbnum Hamri sigruðu báðar í höggleik og punktakeppni. Dóra í flokki 50-64 ára og Gígja í flokki 65 ára og eldri. Arna Hafsteinsdóttir, frá Umf. Svarfdælum, stóð sig vel í frjálsíþróttakeppninni. Hún endaði í 1. sæti í lóðakasti, 2. sæti í spjótkasti, 3. sæti langstökki og í 3. sæti 100 m hlaupi í flokki 50-54 ára. Svanhildur Árnadóttir frá Umf. Svarfdælum, varð í 3. sæti í þríþraut. Þar skiptist keppnin upp í 400 m sund, 12 km hjólreiðar og um það 3 km hlaup. Bridge-sveitir UMSE áttu einnig mjög gott mót. Sveit UMSE 1, sigraði keppnina, en í henni voru Helgi Steinsson, Ævar Ármannsson, Árni Konráð Bjarnason og Gylfi Pálsson. Sveit UMSE 2 náðu 3. sæti í mótinu. Í henni voru Stefán Sveinbjörnsson, Marinó Steinarsson, Smári Víglundsson og Jón Anton Jónsson. Blaklið UMSE fór með sigur af hólmi á mótinu. Liðið skipuðu Marinó Þorsteinsson, Kristján Tryggvi Sigurðsson, Gunnar Þór Garðarsson, Gunnsteinn Þorgilsson, Jón Ingi Sveinsson og Haukur Snorrason. UMSE óskar þessu keppendum til hamingju með árangurinn á mótinu. |
Fréttir >