Fréttir‎ > ‎

Nýr knattspyrnuvöllur á Dalvík vígður

posted Sep 1, 2019, 6:50 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE
Nýr gervigrasvöllur var vígður á Dalvík 31.ágúst og óskum við Dalvíkingum til hamingju með nýja völlinn. UMSE notaði tækifærið og veitti Birni Firðþjófssyni gullmerki en hann hefur verið ötull í sjálfboðaliðastarfi á Dalvík. 

Björn Friðþjófsson, Ungmennafélagi Svarfdæla. 
Björn hefur unnið mikið og gott starf í þágu knattspyrnu á Dalvík um áratuga skeið. 
Hann spilaði á árum áður með Reyni Árskógsströnd og Dalvík og hefur setið í stjórn knattspyrnu á Dalvík til fjölda ára og um árabil í stjórn KSÍ. Hann hefur verið driffjöður í öllu starfi í kringum knattspyrnuna á Dalvík og drifið áfram uppbyggingu íþróttasvæða í byggðarlaginu. Þá hefur hann setið í nefndum og ráðum fyrir hönd UMFS. Hann er ávallt fyrstur á staðinn ef eitthvað þarf að gera hvort sem það er að snyrta svæði, undirbúa leiki eða skipuleggja samkomur. Hann fylgist með gengi liðanna á Dalvík og hvetur og styður einstaklinga frá Ungmennafélagi Svarfdæla sem fara til keppni og æfinga. Óþrjótandi áhugi og dugnaður hafa einkennt hann í gegnum árin og hefur fjölskyldan staðið vel við bakið á honum alla tíð og deilt þessu áhugamamáli með honum. Vinnuframlag hans í þágu ungmennafélagsins er gríðarmikið og verður seint verður fullþakkað.
Björn hefur farið fyrir samninganefnd Ungmennafélags Svarfdæla sem staðið hefur að öllum undirbúningi hins nýja gervigrasvallar gagnvart sveitarfélaginu, hönnun og öðru sem viðkom undirbúningi þess verkefnis. Hann er búinn að stýra framkvæmdum og allri sjálfboðavinnu sem hefur verið unnin. Það er ekki sjálfgefið að fólk í sjálfboðavinnu leggi slíkan tíma, vinnu og metnað fram í þágu samfélagsins. Það er Ungmennafélagi Svarfdæla ómetanlegt að eiga slíkan auð sem Björn er fyrir félagið.
Björn hlýtur í dag gullmerki UMSE fyrir starf sitt í þágu íþrótta- og ungmennafélagsmála.

Comments