Fréttir‎ > ‎

Óskar Þór Halldórsson ritstýrir söguritun

posted Mar 31, 2021, 5:10 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE   [ updated Mar 31, 2021, 5:11 AM ]
8. apríl 2022 verður Ungmennasamband Eyjafjarðar 100 ára. Í tilefni af því var ákveðið að rita sögu UMSE, með áherslu á seinni 50 árin í sögu sambandsins. Óskar Þór Halldórsson hefur verið ráðinn til þess að ritstýra verkinu. Óskar er ýmsum kunnur, en hann skrifaði m.a. Á Ytri-Á, sögu Mundínu Þorláksdóttur og Finns Björnssonar og Gullin Ský, ævisögu Helenu Eyjólfsdóttur. Óskar hefur einnig verið ötull í kringum íþróttastarf. Hann var sem dæmi verkefnastjóri Landsmóts UMFÍ, sem fram fór á Akureyri 2009 og haldið var af UMSE og UFA. Hann starfaði einnig um tíma sem framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar KA. Einnig hefur hann starfað sem sjálfboðaliði innan hreyfingarinnar.


Verkefnið að ná utan um sögu UMSE er viðamikið og taldi stjórn og framkvæmdastjóri mikilvægt að vandað yrði til verksins. Í ristjórn með Óskari verða Jóhanna Gunnlaugsdóttir, Gísli Pálsson og Sigríður Bjarnadóttir. Einnig verður framkvæmdastjóri UMSE innan handar við verkið.


Stjórn UMSE ber miklar vætningar til Óskars og ritnefndarinnar um framgang verksins og stefnt er að því að söguritið komi út á 100 ára afmælisdaginn.

Áhugasamir um að leggja verkefninu lið s.s. með því að senda inn greinar, myndir eða frásagnir er bent á að hafa samband við Óskar í tölvupósti soguritun@umse.is eða beint við skirfstofu UMSE.

Comments