Fréttir‎ > ‎

Svavar fékk styrk úr afreksmannasjóði og er á leið á HM íslenska hestsins

posted Jul 27, 2017, 11:50 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE   [ updated Jul 27, 2017, 4:26 PM ]
Svavar Hreiðarsson, Hestamannafélaginu Hring, tryggði sér keppnisrétt á HM íslenska hestsins sem fram fer í Hollandi 7.-13 ágúst.
 
Bjarnveig Ingvadóttir, formaður UMSE  og Þorsteinn Marinósson, framkvæmdastjóri UMSE hittu kappann í dag í Hringsholti, svæði Hestamannafélagsins Hrings og afhenti Bjarnveig honum styrk úr afreksmannasjóði UMSE.

Leið Svavars að markmiði sínu um að keppa á mótinu hefur verið fjarri áfallalaus, en hann glímir við MS-sjúkdóminn. Svavar varð einnig fyrir því óláni í júní að hesturinn hans hrasaði og féll með Svavar á baki í keppni og töldu menn þá vonir hans um þátttöku á mótinu í Hollandi úti. Þrátt fyrir að bæði Svavar og hesturinn hafi slasast í byltunni þá fór betur en á horfðist og er Svavar á leiðinni til Hollands á næstu dögum.Svavar og hesturinn Hekla frá Akureyri hafa nýtt veðurblíðuna norðanlands undanfarna daga til þess að hesturinn venjist hitanum. Líkt og hjá öðru íþróttafólki er undirbúningur fyrir þátttöku á slíku móti gríðarlegur og kostnaðurinn mikill. Hestar sem fara út til keppni fá ekki að snúa aftur til landsins, en auk þess þurfa keppendur að skilja nánast allan sinn búnað eftir erlendis, hvort sem það er hnakkur, reiðtígi eða stígvél. Þá hefur Svavar þurft að sækja sér hey af Suðurlandi til að fóðra hestinn svo hann venjist því fóðri sem notað verður á mótinu, en heyið tekur hann með sér erlendis.

Töluvert hefur verið fjallað um kappann í helstu fjölmiðlum og má finna umfjöllun um hann meðal annars á ruv.is, mbl.is og visir.is.

UMSE óskar Svavari til hamingju með árangurinn og óskar honum góðs gengis í Hollandi.Comments