Fréttir‎ > ‎

Til minningar um Villa hlaup

posted Dec 30, 2014, 11:47 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE
Laugardaginn 20. desember 2014, var kvaddur góður félagi, en þá var borinn til grafar Vilhjálmur Björnsson, Villi Hlaup eins og hann var ávallt kallaður.

Villi átti að baki áratuga starf, sem sjálfboðaliði innan raða Umf. Svarfdæla og UMSE. Hann starfaði mest í kring um frjálsíþróttir, þó hann hafi alla tíð haft mikinn áhuga á íþróttum almennt. Villi var mikill áhugamaður um Landsmót og Unglingalandsmót UMFÍ, en hann var ein helsta driffjöðurin í því að mögulegt var að halda fyrsta Unglingalandsmót UMFÍ á Dalvík 1992. Eftir það sótti hann öll Unglingalandsmótin, þar sem hann fylgdist ötullega með keppendum UMSE.

Villi var nánast fastafulltrúi á ársþingum UMSE, þá fyrir hönd Umf. Svarfdæla og sagt er að það eina sem gat haldið honum frá þátttöku þar, var söngur sem einnig var ástríða hans. 
Á 70 ára afmæli sínu var Villi sæmdur Gullmerki UMSE, fyrir störf sín í þágu íþrótta- og félagsmála innan sem utan héraðsins. Villi hlaut fjölmargar aðrar heiðranir fyrir störf sín. Hann hlaut Starfsmerki UMFÍ 1983, heiðranir frá FRÍ fékk hann 1982 (Eir), 1984 (Silfur) og 1987 var hann sæmdur Gullmerki FRÍ. Árið 2008 heiðraði Dalvíkurbyggð Villa fyrir stuðning hans við íþróttastarf og íþróttafólk í sveitarfélaginu.

Óhætt er að segja að Villi hafi verið öflugur félagsmaður í alla staði. Hann var ötull við að laða ungmenni til keppni, auk þess sem hann lagði mikið á sig til að koma þeim til og frá æfingum og keppnisstöðum. Sagan segir að eitt árið hafi hann ekið með nokkra krakka frá Dalvík og Árskógsströnd 125 ferðir til Akureyrar og Hrafnagils á æfingar. Hann sótti menn heim að bæjum til þess að aka þeim til keppni og var þá gjarnan með skottið á bílnum fullt af gaddaskóm í öllum stærðum og gerðum. 

Villi var einnig þekktur fyrir að vera með stálminni. Hann mundi alla tíma, lengdir og annan árangur af flestum mótum og var hafsjór af fróðleik um íþróttasöguna. Fólk minntist gjarnan á, þegar upplýsingar vantaði um eitthvað sem tengdist íþróttum, að það þyrfti að fletta upp í Villa, slíkt var minni hans.

Villi var mikill ungmennafélagi og hans ævistarfi sem sjálfboðaliði innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingar er mörgum til eftirbreytni.

Ungmennasamband Eyjafjarðar færir aðstandendum samúðarkveðjur.

Comments