Fréttir‎ > ‎

Unglingalandsmótið á Selfossi

posted Jul 18, 2012, 6:15 PM by Þorsteinn Marinósson
Ungmennasamband Eyjafjarðar stefnir að mikilli þátttöku á Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi. Mótið fer að venju fram um verslunarmanna-helgina. 3.-5. ágúst.
Líklegt verður að teljast að um stærstu íþróttahátíð ársins, en búist er við allt að 2.500 keppendum á aldrinum 11 - 18 ára. Framkvæmd Unglingalandsmótsins er að þessu sinni í höndum HSK.

Í fyrra voru keppendur UMSE 50 talsins og tóku þau þátt í dansi, fimleikum, frjálsíþróttum, glímu, golfi, hestaíþróttum, motocrossi, knattspyrnu, körfubolta og skák. Á því móti hlaut UMSE hin eftirsótta titil „Fyrirmyndarfélagið“.
Stefnt er að því að gera enn betur núna og er það okkar von að enn fleiri fjölskyldur taki þátt í gleðinni með okkur.

Keppnisgreinar á Selfossi verða eftirfarandi: dans, fimleikar, frjálsar íþróttir, glíma, golf, hestaíþróttir, íþróttir fatlaðra, knattspyrna, körfubolti, motokross, skák, taekwondo og starfsíþróttir. Einungis er greitt eitt þátttökugjald fyrir hvern keppanda á mótinu óháð því hversu mörgum greinum viðkomandi tekur þátt í. Gjaldið er 6.000.- Innifalið í því er keppnin, tjaldstæði og öll sú skemmtun og afþreying sem á vegum mótsins er. Skráning á mótið fer fram á heimasíðu mótsins www.ulm.is.

UMSE verður að venju með stórt samkomutjald á tjaldstæðinu. Þar verður hefðbundin dagskrá. Á laugardagskvöldinu býður UMSE til grillveislu. Veislan verður keppendum UMSE og þeirra aðstandendum að kostnaðarlausu í tilefni af 90 ára afmæli UMSE.

Við leggjum mikla áherslu á það að þátttakendur UMSE á mótinu taki þátt í skrúðgöngu við setningarathöfn mótsins og séu þar í félagsgalla UMSE. Ljós er að ekki eiga allir þátttakendur galla. Því viljum við biðja alla að sem taka þátt að verða sér út um hann. Þó nokkuð af göllum er í umferð og eflaust hægt að fá að láni. Einnig eigum við eitthvað af göllum sem við getum lánað.

Gott aðgengi er að rafmagni á tjaldstæðinu, en til að komast í rafmagn þar svokallað húsbílatengi.
Nánari upplýsingar um þátttöku UMSE á mótinu gefur Þorsteinn Marinósson, framkvæmdastjóri UMSE, í síma 868-3820 eða í tölvupósti umse@umse.is. Áhugasömum er einnig bent á að fylgjast náið með á heimasíðu UMSE www.umse.is í aðdraganda mótsins. Það verða birtar upplýsingar um skipulag UMSE á mótinu.


Comments