Fréttir‎ > ‎

Yngstu börn grunnskólanna í Dalvíkurbyggð læra á skíði

posted Apr 13, 2015, 7:25 AM by Ungmennasamband Eyjafjarðar UMSE
Á síðustu vikum hefur farið fram samstarfsverkefni milli Skíðafélags Dalvíkur og Grunnskólanna í Dalvíkurbyggð.
Felst verkefnið í því að nemendur í fyrsta bekk, mæta í Böggvisstaðafjall í íþróttatímum og læra á skíði með íþróttkennurum skólanna og leiðbeinendum frá Skíðafélaginu. Nú þegar hafa börnin mætt í sex skipti og hafa þau náð góðum tökum á skíðunum. Flest þeirra eru nú þegar orðin sjálfbjarga í skíðalyftuna og á barnasvæðinu. Í tilkynningu frá skíðafélaginu segir: 

"Það eru hrein forréttindi að geta boðið börnum sveitarfélagsins upp á slíka þjónustu, en með samstilltu átaki foreldra, skólanna, skíðasvæðisins og skíðafélagsins hefur þetta gengið eins og í sögu, og vonandi komið til að vera um ókomna tíð. Með slíku átaki læra öll börn sveitarfélagsins á skíði sér til yndis, ánægju og útiveru."

Jafnframt vill skíðafélagið koma fram þökkum til allra þeirra sem komu að verkefninu.

Comments