Lög UMSE

Lög Ungmennasambands Eyjafjarðar

1. grein

Sambandið heitir Ungmennasamband Eyjafjarðar, skammstafað UMSE. Það skal stuðla að auknu samstarfi sambandsfélaga, vinna að framkvæmd sameiginlegra áhugamála þeirra og vera málsvari þeirra út á við. UMSE skal leitast við að starfa samkvæmt lögum ÍSÍ samanber 6. kafla 45.2.

2. grein

Félög innan UMSE vinni að bindandi um nautn áfengra drykkja og útrýmingu skaðnautna. Félögin starfi samkvæmt lögum og stefnuskrá UMSE, UMFÍ og ÍSÍ.

3. grein

Rétt til aðildar að UMSE hafa þau ungmenna- og íþróttafélög sem starfa eða munu starfa á sambandssvæðinu, enda séu lög þeirra í samræmi við lög UMSE, UMFÍ og ÍSÍ.

4. grein

Umsóknir um inngöngu í sambandið sendist stjórn UMSE ásamt eintaki af lögum viðkomandi félags, stjórn og félagaskrá. Stjórnin úrskurðar um inngöngu sem þó skal staðfesta á ársþingi. Úrsögn úr UMSE er því aðeins gild að félagið sé skuldlaust við sambandið. Þeim félögum sem ekki hafa sent skatt eða skýrslu í tvö ár samfleytt má víkja úr sambandinu. Ennfremur þeim félögum sem að öðru leyti gerast brotleg við lög þessi. Brottrekstur félags skal staðfest á þingi.

5. grein

UMSE heldur árlega þing fyrir 15. apríl ár hvert. Þó skal þess gætt að hafa ekki þing sömu daga og íþróttaþing eða formannafundir ÍSÍ fara fram. Ársþing skal boðað skriflega með minnst fjögurra vikna fyrirvara og er það löglegt, hafi löglega verið til þess boðað. Skriflegt fundarboð (síðarafundarboðið) með dagskrá og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir þingið skuli sendar aðildarfélögum, sérráðum og öðrum sem rétt eiga til þingsetu með eigi minni en tveggja vikna fyrirvara. Tillögur um lagabreytingar skal senda stjórninni eigi síðar en fjórum vikum fyrir ársþing og skulu þær kynntar aðildarfélögum með þingboði.

6. grein

Hvert sambandsfélag hefur rétt til að senda fulltrúa á ársþing þannig: Einn fulltrúi komi fyrir hverja 50 skattskylda félaga eða færri. Þó skal hvert félag ætíð eiga rétt á tveimur fulltrúum. Tala félagsmanna skal miðuð við síðustu áramót og eru 18 ára og eldri skattskyldir.

7. grein

Þingið, sem er æðsta vald UMSE, hefur á hendi meðferð allra sameiginlegra mála innan takmarka sambandsins. Það kýs stjórn sambandsins skv. 11. gr. og tvo skoðunarmenn reikninga sambandsins og tvo tilvara. Þingið kýs 3 fulltrúa í uppstillingarnefnd og þrjá til vara sem starfa fyrir og á næsta þingi. Í kjöri til stjórnar er æskilegt að séu fleiri en einn til hvers embættis þannig að raunveruleg kosning fari fram. Kjósa skal fulltrúa sambandsins á íþróttaþing.

8. grein

Á ársþingi hafa kjörnir fulltrúar og aðalstjórn UMSE atkvæðisrétt og fer hver með eitt atkvæði. Aðeins sá, sem er í félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi þess á þingi. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf. Sérhverjum félagsmanni innan UMFÍ og ÍSÍ er heimilt að vera á þingum sambandsins og hafa þar málfrelsi og tillögurétt þó eigi sé hann fulltrúi neins félags.

9. grein

Einfaldur meirihluti ræður úrslitum á þingi og verði atkvæði jöfn er málið fallið. Ef lægsta atkvæðatala til að ná kosningu fellur á tvo eða fleiri skal kjósa um þá á ný í bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir ræður hlutkesti. Lögum verður ekki breytt nema með samþykki 2/3 greiddra atkvæða.

10. grein

Aukaþing skal halda ef nauðsyn krefur eða helmingur sambandsaðila óskar þess. Allur boðunar- og tilkynningarfrestur til aukaþings má vera helmingi styttri en til reglulegs þings. Fulltrúar á aukaþing eru þeir sömu og voru á næsta reglulega þingi á undan, og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju í stað fulltrúa, sem er látinn, veikur eða forfallaður á annan hátt. Á aukaþingi má ekki gera laga- eða leikreglnabreytingar og ekki kjósa stjórn nema bráðabirgðastjórn ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum eða stjórnin hefur að eigin dómi orðið óstarfhæf. Að öðru leyti gilda um það sömu reglur og um reglulegt ársþing.

11. grein

Stjórn UMSE, sem kosin er á ársþingi til tveggja ára í senn skipa 5 menn: formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og einn meðstjórnandi. Allir aðalstjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára. Formaður, ritari og meðstjórnandi eitt árið og varaformaður og gjaldkeri árið eftir. Varastjórn er kosin á ársþingi til eins árs í senn og skal skipuð 3 mönnum. Stjórnin hefur á hendi stjórn sameiginlegra mála sambandsins milli þinga, innan þeirra marka sem lög og þingsamþykktir setja. Varamenn skulu boðaðir á stjórnarfundi. Einnig er stjórn sambandsins heimilt að bæta við áheyrnarfulltrúa frá þeim félögum sem eiga ekki mann í stjórn eða varastjórn UMSE.

Stjórnin hefur úrskurðarvald í öllum deilumálum sem upp koma á milli þinga en úrskurði hennar má skjóta til næsta þings til fullnaðarúrskurðar. Stjórnin gefur skýrslu um hag og starfsemi sambandsins til UMSÍ og ÍSÍ skv. lögum þeirra. Hún veitir móttöku öllu því fé sem sambandinu áskotnast, ávaxtar sjóði þess og fer með þá samkvæmt þeirra fjárhagsáætlun er þingið hefur samþykkt. Hún skal ábyrgjast sjóði sambandsins og í sameiningu hafa forsjá um aðrar eignir þess.

12. grein

Formaður, framkvæmdarstjóri og einn stjórnarmaður kosinn af stjórn mynda framkvæmdarstjórn sem hafi umsjón með daglegum rekstri ungmennasambandsins á milli stjórnarfunda. Framkvæmdarstjórn setji sér reglur um hve oft hún komi saman til fundar.

13. grein

Hvert félag greiði árlega skatt til sambandsins fyrir hvern reglulegan félaga sem orðinn er 18 ára. Sambandsþing ákveði árlega upphæð skatts yfirstandandi árs sem greiðist fyrir 1. maí sama ár.

14. grein

Hvert félag geri skýrslu eftir hvert starfsár um hag sinn og starfsemi eftir fyrirmælum UMFÍ og ÍSÍ. Félagatal, ársreikningur og stjórnarskipan skal fært inn í félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ, innan þess frests sem ÍSÍ ákveður. Starfsskýrslum aðildarfélaga og nefnda skal skila til skrifstofu UMSE eigi síðar en tveim vikum fyrir boðað ársþing.

15. grein

Standi félög ekki við ákvæði 14. gr. þessara laga skal stjórn UMSE halda eftir lottótekjum fyrir viðkomandi ár og er heimilt að svipta félagið fulltrúarétt á ársþing, þar til skil hafa veri gerð. Hafi félagið ekki skilað skýrslu inn á félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ fyrir lok næsta árs deilast lottótekjur þess félags jafnt til þeirra félaga sem staðið hafa í skilum. Þá hefur ÍSÍ eða sérsambönd innan ÍSÍ heimild til þess að meina viðkomandi félagi þátttöku í mótum og viðburðum innan ÍSÍ þar til félagið hefur staðið í skilum samkvæmt lögum og reglugerðum ÍSÍ. Félög sem hafa annað rekstrarár en frá 1. janúar til 31. desember og þurfa þar af leiðandi að skila skýrslu síðar en tilgreindur frestur rennur út, skulu sækja sérstaklega um undanþágu til ÍSÍ og einnig senda erindi þess efnist til skrifstofu UMSE.

Reglur um félagaskipti fari eftir móta- og keppnisreglum ÍSÍ og lögum sérsambandanna. Félagaskipti keppnisfólks tilkynnist tafarlaust til skrifstofu UMSE.

16. grein

Stjórn UMSE skal styðja við eftirfarandi dagskrá á ársþingi:

1. Þingið sett

2. Starfsmenn þingsins kosnir

a) Forsetar

b) Ritarar

3. Kjörbréfanefnd kosin

4. Skýrsla stjórnar

5. Reikningar sambandsins og sjóða

6. Álit kjörbréfanefndar

7. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga

8. Ávörp gesta

9. Mál lögð fyrir þingið – umræður

10. Skipan í starfsnefndir og nefndarstörf.

a) Allsherjanefnd

b) Íþróttanefnd

c) Fjárhagsnefnd

d) Laganefnd

11. Afgreiðsla mála

12. Kosningar

a) Aðalmenn í stjórn

b) Varamenn í stjórn

c) Skoðunarmenn

d) Uppstillingarnefnd

e) Fulltrúi á íþróttaþing

13. Önnur mál

14. Þingslit

17. grein

Lög þessi öðlast þegar gildi og eru með þeim úr gildi numin eldri lög sambandsins. Þannig samþykkt á 92. ársþingi UMSE í Valsárskóla 16. mars 2013.